Þegar við erum að byrja að sigla er eðlilegt að fólk hafi áhyggjur og margar spurningar um hvernig það er að vera úti á sjó. Þetta á ekki síst við um foreldra, forráðamenn og ráðsett fólk, sem mæta með börnin sín til okkar. Hér eru svör við nokkrum spurningum sem er algengt að fólk hafi.
Sjóveiki kemur upp þegar jafnvægisskyn (sem líkaminn skynjar í innra eyra) sendir skilaboð til heilans sem eru önnur en það sem augun sjá. Það er einstaklingsbundið hvernig fólk bregst við þessum misvísandi skilaboðum og sumir virðast fá illkynja sjóveiki, á meðan að aðrir fá góðkynja afbrigði. Það geta allir orðið sjóveikir, það er bara spurning um hversu mikinn sjó þarf til.
Sjóveiki gengur yfir á endanum. Sumir þurfa bara að loka augunum í 10 mínútur á meðan aðrir eru óstarfhæfir í lengri tíma. Þetta er persónubundið og sumir telja sig geta þjálfað sig frá þessum kvilla, á meðan aðrir taka þessu bara sem hluta af sjómennskunni.
Á kænum erum við alltaf að horfa á öldurnar í kringum okkur, sem þýðir að augu og eyru eru að senda sömu skilaboð til heilans. Við erum líka sjaldan að sigla í miklum öldum. Krakkar finna stundum fyrir glýju ef þau eru ekki að sigla sjálf, en þá er það oftar en ekki kuldi frekar en raunveruleg sjóveiki.
Þetta gerist sérstaklega ef farið er undir þiljar á bátnum, þar sem byrgir fyrir sjóldeildarhringinn, á meðan öldurnar eru enn til staðar. Þetta geirr að eyru og augu fara aftur að verða missaga. Siglingar á kjölbátum eru líka lengri og fara fram á sjó þar sem eru meiri öldur. Þrátt fyrir þetta er mjög sjaldgæft að áhafnir hjá okkur verði sjóveikar. Við erum yfirleitt ekki svo lengi úti og förum ekki út ef stórt er í sjóinn.
Eftir að hafa verið úti á sjó í einhvern tíma er ekki óalgengt að finnast eins og að landið ruggi og dúi undir þegar stigið er í land. Þetta kallast sjóriða sem gengur yfir á skömmum tíma.
Alveg örugglega! Jafnvel ef þú ferð út í logni á kajak, munt þú fá vatn af árinni á þig. Kænur sitja lágt í sjónum og fara sæmilega greitt yfir ölduna. Það mun því skvettast á þig og þú blotna. Síðan er líka hægt að velta þessum bátum og það gerist að lokum þegar maður fer út í nægum vindi. Sem betur fer er lítið mál að rétta þessa báta við og halda áfram að sigla.
Kjölbátar eru þurrari en kænur, svo fremi að það er ekki mikil alda og vindur. Kjölbátar fara hins vegar mun lengra út á sjó og ef veður skiptist verður töluvert meiri sjór en maður gerði ráð fyrir. Þá gengur vatn yfir bátinn og verður mikill handagangur í öskjunni, en það er mun erfiðara að velta þessum bátum (það er þó hægt) og þeir rétta sig sjálfkrafa við. Það hefur komið fyrir að hásetar falli fyrir borð þegar mjög mikið gengur á úti á bátnum. Við siglum hins vegar aldrei ein á kjölbátum og áhafnir eiga að æfa björgunaraðgerðir til þess að endurheimta þá sem falla útbyrðis.
Þó þú blotnir ert þú ekkert verri fyrir vikið. Lykilatriði er að klæða sig rétt og njóta öldunnar og vindsins sem þú ert að nýta til eigin ánægju í siglingunum.
Við gerum kröfu um að allir sem eru á námskeiðum eða æfingum séu í flotvesti, eða í sjálfuppblásanlegu björgunarvesti, þannig að líkurnar á því að kaffærast eru ákaflega litlar þó að fólk fari í sjóinn. Það hefur enginn drukknað í siglingaklúbbnum Ými frá stofnun hans árið 1971. Druknun eru líka nánast óþekkt í siglingaklúbbum á heimsvísu, enda er tilgangur klúbba að kenna siglingar og fylgjast með öryggi í vatnasportinu.
Áhættan í siglingum eykst alltaf þegar hraðinn eykst og fjöldi þunnra banda eykst. Hættulegasti báturinn sem tengist siglingum hjá er hins vegar vélbáturinn sem fylgist með þér, sem við köllum öryggisbát. Í Ými er öryggisbáturinn ekki leiktæki. Við notum hann ekki til þess að draga sjóskíði, kleinuhringi eða annarskonar leiktæki. Það þarf alltaf að hafa varan á þegar vélbátar og seglbátar sigla á sama svæði, og því erum við alltaf á varðbergi.
Við viljum að sjálfsögðu segja nei, en… Sumir virðast kunna að sigla frá upphafi á meðan aðrir brasa við að ná tökum á seglbátum.
Að sigla bát er í grunninn ekki flókið en byrjendur finna réttilega að það eru ansi margir hlutir að gerast samtímis þegar maður siglir. Það er því algerlega ómögulegt að læra siglingar af bókum eða með því að horfa á YouTube myndskeið. Þú verður að læra þetta á eigin spýtur með því að prófa, mistakast, og halda áfram. Bækur og YouTube geta svo hjálpað að skýra hlutina þegar þú byrjaður að læra og farinn að finna fyrir hreyfingu bátsins og vindinum sem ýtir þér áfram.
Við höfum reynslu af að börn þurfa að vera orðin nokkuð sjálfstæð andlega og líkamlega áður en þau fara í þetta verkefni. Það er aldrei hægt að “öskra börnin áfram” í siglingum, ef þau verða hrædd er útiveran búin og jafnvel allt sjálfstraust til þess að fara út á bát. Við mælum því með að krakkar séu komnir yfir 10 ára aldur þegar þau byrja að læra, þó svo við höfum vissulega séð yngri krakka sigla eins og herforingja.
Á sama tíma hættir fullorðnum við að ofhugsa hlutina eða fá einhverskonar “Jónasar-ótta” (sem er óttinn við að vera gleyptur af hval ef þú dettur í sjóinn). Fullorðnir vilja líka oft læra á báta (t.d. kjölbáta) sem eru stærri og flóknari í meðferð en kænur og þurfa agaðri vinnubrögð til þess að sigla rétt.
Vissulega getur kænan verið voðaleg dolla í fyrstu. Hún skoppar um, hallast, snýst og ruggar við minnsta tækifæri og það þarf alltaf að halda í bæði stýri og skaut þegar maður siglir henni. Síðan þarf maður að klöngrast milli borða á réttum tíma þegar maður vendir, annars fær maður sundsprett. Þetta getur verið erfitt fyrir stirðari einstaklinga sem hugsa of mikið.
Seglin á kænunni virka hins vegar nákvæmlega eins og þau gera á kjölbátum. Á kænunni þarft þú að geta siglt sjálfstætt, það segir þér enginn nákvæmlega fyrir verkum. Ef þú beitir seglum rang, eða hefur þau rangt sett uppt, hægir þú á þér og hefur á sama tíma meira fyrir hlutunum. Sama gerist í raun á kjölbátum en fæstir þekkja muninn á réttu og röngu segli þótt þeir hafi siglt í áraraðir. Mestu mistök sem þú getur gert á kænunni er að sigla í strand og rispa bátinn. Ef þú siglir í strand á kjölbát getur báturinn sokkið eða þú þarft að hringja eftir aðstoð. Þetta er ástæðan fyrir því að við mælum með því að fólk læri að sigla á kænum, þó svo að við neiðum engan til þess að fara þessa leið.
Í Ými gerum við ráð fyrir að það taki um 15 klst fyrir byrjendur að ná grunn handtökunum við stjórnun á bátum og byrji að skilja hvernig báturinn hreyfist þegar hann siglir. Hér eru taldir tímar í landi, og tímar með öðrum vönum úti á sjó. Þessi handtök er hægt að læra í námskeiðunum “Lærðu að Sigla” á kænu, eða með því að taka námskeiðið “Hæfur Háseti” sem fer fram á kjölbát. Það skiptir ekki máli hvort þú lærir á kænu eða kjölbát - seglin sem láta þig sigla virka eins í báðum tilfellum.
Það getur síðan tekið aðrar 18-30 klukkustunda reynslu þar sem þú ert skipstjórinn til að ná grunn færni. Þetta er best gert með því að mæta nokkuð reglulega og láta reyna á færnina í mismunandi vindi og aðstæðum.
Það er síðan hægt að bæta við sig endalaust í siglingum, en þetta ætti alltaf að vera gaman!
Alls ekki, þó svo að sumar kænur eru nokkuð augljóslega of litlar fyrir fullorðna. Það er til dæmis ekkert sérstaklega notalegt fyrir fullorðinn einstakling að sigla Optimist kænu. Kænur hafa líka ákveðin þungatakmörk. RS Zest báturinn er með hámarks áhafnarþunga upp á 225kg, sem bendir til þess að hann sé ekki bara ætlaður börnum. Aðrir bátar, eins og Laser með Radial segli, þarf einstakling sem er minnst 75 kg til þess að sigla vel. Það sem fyrst og fremst gerir kænur óspennandi fyrir fullorðna er að plássið er oft takmarkað og það er alltaf svolítið blautt að sigla. Þetta eru líka bátar sem eru hugsaðir fyrir 1-4 klst útiveru þar sem þú byrjar og endar á sama stað. Spurningin er því ekki um aldur, heldur val á bát þegar fullorðnir velja sér kænu til siglinga.
Ýmir kennir siglingar á RS Zest báta, þar sem fer nokkuð velu um einn fullorðinn. Við kennum líka á RS Quest báta, sem eru “tvíhenntir”, hugasðir fyrir tvo fullorðna eða tvö til fimm börn. Quest báturinn opnar nýjan heim fyrir fullorðna og fjölskyldur í siglingum, er þægilegur, “þurr” og “stöðugur” og ákaflega einfaldur í uppsetningu og notkun.
Til þess að njóta siglinga á kænum er mikill kostur að vera ungur í anda og til í að ýta þægindarammanum aðeins út fyrir “sófasiglingar”. Einfaldleiki kænunnar og aðgengi sem Ýmir veitir að þessum bátum gerir auðvelt að komast út á þessa báta og njóta útiverunar.
Hér getum við ekki sagt nei, þó svo að það virðist oft kaldara út um stofugluggan en það er í raun og veru.
Þú mátt gera ráð fyrir að á daginn sé aðeins kaldara úti á sjónum en uppi á landi. Það eru engin tré eða hús sem skyggja á vindinn og því eru líkur á að það sé meiri vindur á sjónum. Ef þú siglir fyrir opnu hafi er líka nær undantekningarlaust meiri vindur og stærri öldur en við ströndina. Þessi vindur er hins vegar það sem þú leitar eftir. Versta veður fyrir siglingar er logn og rigning.
Ef þú blotnar eða svitnar dregur úr einangrunargildi í fötunum og þá nær vindurinn að kæla þig enn frekar. Á kænu og árabátum er maður stöðugt að hreyfa sig, þannig að maður vinnur sér inn hita tiltölulega vandræðalaust. Á kjölbátum er oft mikið að gera í stuttum skorpum, en síðan koma tímabil þegar minna er að gera. Þá er hætt við að menn byrji að finna fyrir næðingnum og fari að líða aðeins verr.
Mikilvægasti fatnaðurinn á sjó er vindheldur fatnaður, sem getur aðeins andað. Síðan er mikilvægt að hafa næst sér flíkur sem eru þéttar við skrokkinn og draga raka frá skinninu. Það er betra að vera í mörgum þunnum lögum en að vera í einu þykku lagi.
Við mælum með að kænusiglarar hlusti með “puttum og tám” á hvort að það sé tími til að fara í land. Við mælum með að kjölbátasiglarar taki með sér “of mikið” af fötum, húfur, vetlinga, peysur, trefla o.þ.h. þó svo að það sé spáð blíðviðri. Þessi föt er hægt að geyma í káetunni á bátnum ef þeirra er ekki þörf. Ef vindur gengur upp af landi getur verið barningur að komast aftur í land og þá er gott að geta skipt út blautum fötum fyrir þurr föt.
Það er ekki nauðsynlegt að kaupa siglingagalla strax og maður byrjar að sigla. Ef þú klæðir þig rétt er hægt að læra siglingar og finna hvort að þetta eigi við þig áður en þú ferð út í að kaupa dýran búnað. Við vitum hins vegar að bleyta og volk eru ekki freistandi lífskilyrði, þannig að Ýmir fjárfesti í nokkrum blautbúningum sem við leigjum út í kænu og kajaknámskeiðum til þess að auðvelda fyrstu skiptin sem þú dettur í sjóinn.
Ef siglingar höfða til þín er ekki spurning um að þú ættir að kaupa réttan fatnað til þess að njóta siglinga, veldu bara rétta fatnaðinn.
Eini fatnaðurinn sem við segjum að þú eigir ekki að vera í eru gallabuxur, bómullarpeysur og leðurskór. Hlaupabuxur undir vindbuxum og fótboltatreyja undir vindjakka duga vel til þess að byrja með.
Fyrir kænusiglingar hér á landi á sumrin er nóg að kaupa 3mm þykkan búning sem er þröngur, en ekki of lítill. Þessi þykkt þýðir að búningurinn er lipur í hreyfingum, en getur verið kaldur fyrst þegar þú ferð í sjóinn. Síðan kaupir þú skó og vindhelda yfirhöfn. Það er líka gott að vera með grip-hanska ef maður er að sigla í miklum vindi. Kostnaður fyrir þennan búnað er í kringum 40 þúsund og uppúr. Blautgallar endast í um 4-6 ár ef maður siglir mikið á kænum. Þurr og hreinn endist gallinn í áratugi.
Ef þú ert meira ofan í sjónum ofan á honum kaupir þú þykkari búning, 5-7mm. Þessir gallar eru aðeins stífari og það getur verið bras að komast í þá án þess að bleyta þá fyrst að innan með volgu vatni.
Þessir búningar er 100% vatnsheldir og vandaðir Gore-TEX gallar hleypa svita nægilega vel út til þess að þú verður ekki þvalur og kaldur undir gallanum þrátt fyrir að vera í hreyfingu á bátnum. Þessir gallar eru viðkvæmari en blautbúningar, en einnig hlýrri í vondum veðrum. Til viðbótar að kaupa þurrbúning fyrir um 80 þúsund krónur og uppúr, kaupir þú líka undirfatnað, eða notar ullarfatnað, kaupir skó og hanska. Kostnaður er því líklega yfir 100 þúsund. Blautbúninga þarf að skoða reglulega og gera við. Í mikilli notkun endast þessir gallar í 2-3 ár. Stroffur á þessum búnaði vilja hraðna með tímanum og saumar geta byrjað að mýkjast.
Reynslan hefur sýnt okkur að það er skynsamara að vera aðeins svartsýnni með veðrið hér á landi, þannig að “offshore” eða “foul-weather gear” er þykktin sem þú skoðar með tilliti til okkar umhverfis. Ef þú ert að leita á netinu eru sjóbuxurnar oft kallaðar “salopettes” og jakkarnir “offshore sailing jackets”. Síðan kaupir þú stígvél sem eru með hvítum sóla. Undir þetta er hægt að nota ullarflíkur eða jafnvel vatteraðar dúnflíkur. Þessi klæðnaður heldur þér nægilega þurrum í öllum veðrum og þó hann blotni er hann nægilega vindvarinn til þess að þér kólnar ekki. Þessir gallar lofta betur en þurrbúningar og eru auðveldari að fara í og úr (einnig hægt að vera bara í hluta af gallanum). Heildarkostnaður fyrir svona flíkur er sjaldan undir 100 þúsund kr, en það getur verið allnokkur verðmunur eftir merkjum og þykkt á göllum. Siglingagallar endast lengi, nema þú farir að nota hann í gönguferðum og hestamennsku. Það er hægt að endurhúða með vatnsverjandi efni ef þeir byrja að leka. Þessi fatnaður þolir ekki olíur eða sterkar sápur.
Þú setur hreinan og þurran siglingagallann í “sjópoka”, þar sem er meðal annars handklæði, 2-3 plastpokar, nokkrar hlýjar flíkur sem sem eru aðeins og old-school til þess að þú viljir nota annars, ullarsokkar, nærföt eða sundskýla, sólaráburður, teygjubindi og gott súkkulaðistykki. Ef þú þarft eigin björgunarvesti setur þú það líka í pokan, annars eru björgunarvesti það fyrsta sem bátaeigendur útvega. Síðan setur þú sjópokann við útidyrnar eða í skottið á bílnum svo hann sé tilbúinn þegar þér dettur í hug að skreppa út á sjó. Ef þú þarft alltaf að pakka upp á nýtt eins og þú sért að fara að heiman, ferðu aldrei út á sjó.
Það er ekkert að því að byrja siglingar á kjölbátum, sérstaklega ef þú ert ekkert spenntur fyrir að detta í sjóinn. Volk er lýjandi, og sjórinn er alltaf blautari, saltari og kaldari en þú heldur í fyrstu. Kænur eru því ekki rétt lausn fyrir alla, þó svo að við reynum vissulega að finna rétta kænur fyrir flesta.
Kjölbáturinn býður upp á umhverfi þar sem þú byrjar (vonandi) að sigla með vönum einstaklingum sem segja skýrt til verka og eru til í að útskýra hvað er að gerast og hverju má búast við þegar þú siglir. Með tímanum munt þú öðlast þekkingu og reynslu á því hvernig þessum bátum er siglt og munt treysta þér til þess að fara á sjó ásamt verðmætustu einstaklingum lífsins, vinum, börnum og barnabörnum.
Í Ými byrjum við að kenna fólki handtökin á seglbátum í námskeiði sem heitir “Hæfur háseti”. Á þessu stutta námskeiði förum við út og reynum að finna mismunandi vinda og öldur. Við kennum orðtök sem áhöfn notar til þess að tala saman á meðan bátnum er stýrt, hvernig bátnum er vent og seglum breytt eftir vindi. Síðan eru kenndar björgunaræfingar og hvernig á að rifa seglin.
Við kennum þetta námskeið á skútu sem er ekki með flókna vél+gírkassa, klóaklögn, raflögn, olíu-, sjó- og ferskvatnstanka eða annarskonar kerfi sem eru á stórum seglbátum.
Við reynum síðan að byggja upp reynslu í stýringu báts og segla með því að bjóða upp á fastar áhafnir á sömu skútu, eða með því að fá fólk til þess að læra að sigla á litla Yngling eða Micro-18 kjölbátunum okkar, ef kænan er of blaut. Við trúum stíft á að það sé mikilvægast að læra að beita seglum áður en maður lærir að skipta um olíusíu og losa netalínu úr skrúfu úti á sjó.
Margir félagar í Ými eiga og reka stærri og flóknari kjölbáta. Í kjölbátadeildinni er því líka samfélag þeirra sem finna ánægju í viðhaldi og fjárfestingum kjölbáta og eru alltaf til í að fá hendur til að hjálpa...