Söguágrip
Söguágrip
Siglingafélagið Ýmir var stofnað fimmtudaginn 4. mars 1971. Stofnfundur þess hófst kl: 21.00 og var haldinn í húsakynnum Æskulýðsráðs Kópavogs við Álfhólsveg. Stofnfélagar voru 14 og fara nöfn þeirra hér á eftir:
Sigurjón Hilaríusson Rúnar Steinsen Brynjar Valdimarsson Steinn Steinsen Bjarni Jarlsson Kjartan Jarlsson Valdimar Karlsson Stefán Stephensen Skeggi Guðmundsson Jóhanna Jónsdóttir Guðrún Helga Andrésdóttir Benedikt Lövdahl Ásgeir Ásgeirsson Valgerður Jónsdóttir
Eitt fyrsta verk fundarins var að kjósa stjórn og voru þessir kjörnir til eins árs:
Formaður: Rúnar Steinsen Varaformaður: Brynjar Valdimarsson Gjaldkeri: Bjarni Jarlsson Ritari: Valgerður Jónsdóttir Spjaldskrárritari: Steinn Steinsen. Eftirlitsmaður með bátakosti: Valdimar Karlsson.
Eftir stjórnarkjör fóru fram umræður um framtíð og markmið félagsins. “Ákveðið var að koma saman á þriggja vikna fresti og hafa þá ýmislegt til skemmtunar.” Settur var á fót hugmyndabanki m.a., um nafn á hið nýstofnaða félag. Margt fleira var rætt og sett í hendur stjórnar til frekari vinnslu. Fundinum lauk síðan með að sýndar voru tvær kvikmyndir: önnur frá siglingaklúbbi við Garelock í Skotlandi og hin frá ferð Æskulýðsráða Kópavogs og Reykjavíkur 1967.
Bátakostur félagsins var í upphafi: “Lánsbátur frá Æskulýðsráði, 1 seglbátur, og trillubátur sem hafði verið breytt í seglbát”. Fljótlega hófu félagsmenn smíði nýrra báta og voru fyrstu fjórir bátarnir af tegundinni “International Fireball” smíðaðir veturinn 1971-72 og voru þeir teknir í notkun þá um sumarið.
Eitt af verkum fyrstu stjórnar var að setja félaginu lög. Fyrstu lög félagsins voru því samþykkt 1972 og fólu þau í sér markmið og hvernig skyldi unnið að framgangi þeirra. Aðal markmið félagsins var skilgreint svo í 2. grein: “Markmið félagsins er að starfa að siglingum sem íþrótt”. Hvernig þessu markmiði skyldi náð er lýst í 3. grein: “Markmiði sínu hyggst félagið ná með því að veita félögum þess aðstöðu til smíða á bátum og geymslu á þeim. Einnig skal félagið beita sér fyriri bættri siglingaaðstöðu”.
Félagið eignaðist fljótlega eftir stofnun þess skemmu og fékk leyfi til að setja hana niður við hliðina á Kópaneshúsinu við Vesturvör þar sem Æskulýðsráð Kópavogs rak siglingastarfsemi sína. Þessi skemma var notuð undir smíðar og sem báta- og mastursgeymsla næstu 30 árin. Þó skemman væri ekki glæsileg nýttist hún félögum Ýmis vel. Þar sinntu félagar viðhaldi á bátum sínum og á árunum 1974-76 var smíðaður þar 25 feta kjölbátur sem hlaut nafnið “Skýjaborg”, nafngift sem kanski var lýsandi dæmi um hugmyndir manna og viðhorf til siglingaíþróttarinnar á upphafsárum hennar.
Auk þess að skapa félagsmönnum aðstöðu til smíða og geymslu á bátum sínum vann félagið jafnframt að framgangi siglinga sem viðurkenndrar íþróttagreinar. Það gerði félagið með því að gerast aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings, UMSK og þar með löglegur aðili að stofnun Siglingasmanbands Ísland, SÍL sem stofnað var 25. október 1973, og var það 15 sérsamband ÍSÍ. Félagar Ýmis hafa allar götur síðan verið virkir þátttakendur í starfi og stefnumótun SÍL.
Á 5. ára afmæli félagsins 1976 hefur félögum fjölgað úr 14 í 76, bátum félagsmanna fjölgað og þeir stækkað með tilkomu kjölbáta. Í fréttatilkynningu segir svo: “Félagsmenn eiga báta sína sjálfir og eru nú á vegum félagsins eftirtaldir bátar: 1 Cresent, 2 Flipper og 8 Fireball seglbátar. 2 25 feta Quarter Tonner, 1 27 feta Vega og 1 38 feta Ohlson”.
1977 hófst bygging á félagsaðstöðu Ýmis. Leyfi fékkst til að staðsetja húsið til bráðabirgða fyrir ofan skemmuna. Bygging hússins tók mörg ár enda fjármagn af skornum skammti og húsið alfarið byggt í sjálfboðavinnu. Húsið var tekið almenna notkun 1986. Upphaflega var gert ráð fyrir sturtuaðstöðu en þegar sturtu- og búningsaðstaða fékkst í húsi Kópaness var hætt við þá fyrirætlun og húsið nýtt til funda og kennslu.
Mikill uppgangur var á þessum upphafsárum og fjölgaði þátttakendum og bátum ört. Kænum fjölgaði ört og tegundaflóran varð fjölbreyttari. Optimist, Topper og Mirror fyrir yngri hópinn, Laser, Wayfarer, 470, 505, Finn og Star fyrir þá eldri. Einnig voru flutt inn mót og smíðaðir voru nokkrir Micro 18, PB63 og Tur 84 kjölbátar auk þess sem siglingar á seglbrettum bættust við.
Þessi fjölgun báta kallaði á bætta aðstöðu og lögðust félagsmenn á eitt við að bæta hana. Kjölbátamenn fengu leyfi fyrir og byggðu bryggjustúf með landgangi og flotbryggju, skipulögðu og lögðu út legufæri, lýsing á svæðinu var bætt og kænumenn byggðu stoðvegg á milli SVK og skemmunnar. Þá hófu kjölbátamenn einnig að halda reglulega fræðslu og skemmtifundi mánaðarlega yfir vetrartímann. Það starf vatt upp á sig og úr varð að 1982 var stofnað Kjölbátasmband Íslands, KBÍ. Á sama tíma tóku nokkrir siglingamenn sig til og gáfu út fræðsluritið “Regluboðinn”, en eins og nafnið gaf til kynna var meginefnið umfjöllun um kappsiglingareglur og skýringar á þeim en einnig flutu með greinar um tækni og stillingar á seglum og reiða.
“Fyrsta alvörusiglingakeppnin hér á landi fór fram á Fossvoginum um helgina”. Svona hljóðaði frétt í “Dagblaðinu” að afloknu Íslandsmeistaramóti á Fireball og Flipper helgina 21–22 ágúst 1976. Hvort það var satt og rétt skal látið liggja milli hluta, en víst er að mikil gróska var að hefjast í íþróttaiðkun siglingamanna. Farið var að halda reglulegar kjölbátakeppnir og í mörg ár var fimmtudagskeppni fastur liður hjá kænumönnum auk annarra móta. Til að sinna keppnisstjórn og öryggisgæslu festi Ýmir kaup á 17 feta Avon harðbotna slöngubáti 1980. Félagið fékk styrki til kaupanna meðal annars frá Dómsmálaráðuneytinu og SÍL. Skilyrði ráðuneytisins var að lögreglan hefði aðgang að bátnum, en framlag SÍL var til útbreiðslu og sem leiga vegna notkunar starfsmanns sambandsins sem í nokkur sumur sá um keppnisstjórn. Mikil þátttaka var og Skerjafjörðurinn iðulega þakinn seglum. Félagar Ýmis voru iðnir við kolann og tíðir gestir á verðlaunapalli bæði á kænum, og kjölbáum sem og brettum. Einnig hafa félagsmenn tekið þátt í fjölda erlendra móta meðal annars tvennum Ólympíuleikum. Félagsmenn hafa einnig hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir íþróttaiðkun.
Eftir því sem tíminn leið, iðkendum fjölgaði og bátar stækkuðu varð krafan um bætta aðstöðu sífellt háværari. Krafan um höfn með flotbryggjum, rýmra uppsátur auk aðstöðu til viðhalds og viðgerða stærri báta Kynnti félagið meðal annars hugmyndir Gunnlaugs Jónassonar sem gert hafði teikningar og líkan að höfn og aðstöðu fyrir Ými auk bryggjuhúsa. Þess má til gamans geta að þessi bryggjuhús voru nánast eins og þau sem nú standa við Hafnarbraut ofan Kópavogshafnar. Því miður töluðu félagsmenn fyrir daufum eyrum bæjaryfirvalda og þvi var það að þegar flotbryggja var tekin í notkun í Reykjavíkurhöfn 1989 leystu flestir kjölbátar landfestar og sigldu á brott. Þetta var mikil blóðtaka fyrir félagið, því þó flestir hafi haldið tryggð við félagið og keppt fyrir þess hönd næstu árin þá fækkaði þeim og sá kraftur sem hafði einkennt félagsstarfið dvínaði. Til að halda starfseminni gangandi tók Ýmir við rekstri Kópaness og vildi með því stuðla að viðgangi íþróttarinnar í Kópavogi. Sú starfsemi gekk ágætlega til að byrja með en sífelt dró úr fjárframlögum og að endingu varð félagið að gefa þessa starfsemi frá sér.
Félagið keypti um svipað leyti tvo 26 feta kjölbáta af Secret 26 gerð. Var tilgangurinn sá að laða kjölbátaáhugamenn að félaginu, stunda kennslu og þjálfun og einnig átti að nota bátana við tvíliðamót. Þetta starf gekk vel í upphafi og lögðu margir félagsmenn á sig mikla sjálfboðavinnu. Aðstöðuleysi og fámenni varð þó til þess að draga kraftinn úr starfinu smátt og smátt þó bátarnir væru notaðir áfram af félögum og við barnastarf.
1997 var sett á fót aðstöðunefnd sem falið var það hlutverk að kanna skilgreina og vinna að markvissri áætlun um framtíðaraðstöðu Siglingafélagsins Ýmis. Hlutverk nefndarinnar breytist síðan og verður hún í frammhaldinu að byggingarnefnd. Það verður sjálfsagt ekki á neinn hallað að halda því fram að potturinn og pannan í því starfi sem hér var sett af stað og það sem á eftir fylgdi var Margrét Björnsdóttir. Það var svo árið 2000 að hugmynd kviknaði að byggingu hafnarhverfis með aðstöðu fyrir Siglingafélagið Ými við Fossvog. Hugmyndinni var komið á framfæri við Byggingarfélag Gunnars og Gylfa sem tóku henni vel og ásamt Björgun í samstarfi við Björn Ólafs arkitekt hófust handa við undirbúning og kynningu hugmyndarinnar. Fékk hún samþykki bæjarstjórnar og var hafist handa við uppfyllinguna.
Vegna framkvæmda var öll starfsemi í lausu lofti og staðan 2006 erfið. Því var gripið til þess ráðs að færa félagsheimilið út í Kópavoghöfn og halda starfinu þar áfram á meðan á framkvæmdum stæði. Samstarf byggingarnefndar og arkitekts hófst 2007 þar sem farið var yfir þau atriði sem vörðuðu þarfir Ýmis. Þegar niðurstaða lá fyrir og hönnun lauk var ekki eftir neinu að bíða með að hefja framkvæmdir.
Fyrsta skóflustungan að nýrri aðstöðu Ýmis var tekin 6. júní 2008. Unnið var að byggingu húss og frágangi á lóð næsta árið. Gamla félagsheimilið var selt 2009 og svo var það stóra stundin. 25. júlí 2009 sigldu kjölbátar inn Skerjafjörðinn þöndum seglum í siglingakeppni, gesti dreif að og við hátíðlega athöfn fór fram formleg afhending nýrrar og glæsilegrar aðstöðu. Langþráður draumur var orðinn að veruleika, Siglingafélagið Ýmir hafði fengið fast aðsetur að Naustavör 14.