Orðið kjölbátar er notað fyrir seglbáta þar sem einn af "uggunum" undir bátnum er þungur í samanburði við restina af bátnum.
Á bát sem er í kringum 1 tonn gætu 600 kg eða meira verið í einu blýstykki sem er staðsett um metra undir sjólínu. Þetta þýðir að "þungamiðja" bátsins er langt fyrir neðan sjávarmál á meðan að "snúningspunktur" bátsins er nokkuð fyrir ofan sjávarmál. Þetta þýðir að þegar báturinn hallar undan vindi, er mikill "réttingarkraftur" frá kilinum sem vinnur gegn hallanum og réttir bátinn af.
Vindurinn getur því blásið vel í seglin og báturinn hallast. Það er hins vegar ekki vegur að vindurinn geti blásið bátnum alveg um koll - þegar báturinn hallar minnkar svæðið sem vindurinn "sér" og ef báturinn fer alveg á hliðina "sér" vindurinn ekki seglið.
Einn af þeim þáttum sem byrjendur eru smeikir við (að hvolfa og lenda í sjónum) er því farið úr myndinni - þú getur ekki velt bátnum.
Þessir bátar hafa nokkra ókosti
Kjölbátar eru dýrir - lítill kjölbátur kostar auðveldlega 2-5 milljónir (notaður) á meðan að kænan kostar 1-2 milljónir. Til viðbótar þurfa kjölbátar þónokkuð viðhald á meðan kænan er miklu einfaldari í meðferð.
Þú dregur bátinn ekki í land eða sjósetur hann með því að renna honum niður rampinn. Þessir bátar eru hífðir í og úr sjónum með krana. Þetta er meira en flestir siglingaklúbbar geta séð um.
Þú getur strandað bátnum og eyðlagt hann. Þar sem báturinn er þungur og kjölurinn er nokkuð fyrir neðan sjávarmál er ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvar er óhætt að sigla
Til þess að sigla bát sem er lengri en sex metrar þarf sérstök réttindi, og þessi réttindi er ekki hægt að fá fyrir 18 ára aldur
Við eigum/höfum aðgang að litlum kjölbátum sem eru undir sex metrar að lengd. Við erum líka með einstakt siglingasvæði (Fossvog, Arnarvog og Skerjafjörð) sem er varið frá umferð atvinnuskipa og stærri báta. Með því að takmarka siglingasvæðið getum við tryggt snögg viðbrögð og kennt þér að sigla þar sem við þekkjum allar nibbur og grynningar.
Við skráum 2-3 nemendur á bát í hverju námskeiði (við getum kennt á 2-3 báta í einu). Áhöfnin hittist síðan tvisvar til þrisvar í viku og siglir saman undir handleiðslu kennara. Hér er auðveldast að ákveða siglingatímana fyrirfram, en það er alltaf möguleiki á að hliðra tímum til.
Námskeiðið er hugsað sem mánaðarlangt námskeið, með mögulegri framlengingu til þess að áhöfnin nái tökum á siglingunum.
Í fyrstu siglingunum er kennarinn um borð í bátnum með áhöfninni. Í seinni siglingum er kennarinn um borð í öryggisbát og fylgist með. Að lokum fær hópurinn talstöð og siglir sjálfstætt.
Námsefnið í þessu námskeiði er það sama og við förum í gegnum í örðum kænunámskeiðum
Hvernig á að komast úr höfn
Stagvendingar
Upp í og undan vindi
Beitingar
Kúvendingar
Að sigla litlum kjölbát er í rauninni alveg eins og að sigla kænu.
Þetta námskeið er ekki sami hlutur og Hæfur Háseti. Hér er áherslan á að læra að sigla, í Hæfur Háseti er farið yfir fjölmarga aðra hluti á borð við siglingareglur, rifun segla, björgun úr sjó og meðferð véla. Eftir Hæfur Háseti ert þú háseti - sem er skrefið áður en þú verður skipstjóri. Háseti verður skipstjóri þegar hann kann að sigla og fara rétt með báta.