Siglingaklúbbar á borð við Ými, Brokey, Þyt, Nökkva og Vog hafa í gegnum tíðina sent iðkendur á siglingakeppnir sem Siglingasamband Íslands, eða klúbbarnir sjálfir standa fyrir. Sum þessara móta telja til stiga í Íslandsbikarnum, og að lokum er einn af keppendum kosinn siglingamaður/kona ársins.
Þeir sem stunda keppnir geta síðan fengið styrki til þess að sækja æfingabúðir erlendis og sækja jafnvel alþjóðleg mót. Það fer hins vegar ekki mikið fyrir þessu íþróttafólki hérlendis, en þetta er virkur hópur einstaklinga á öllum aldri. Sumir í þessum hóp eiga eigin báta og eigin keppnisbúnað. Ýmir styður við sitt keppnisfólk í siglingum og hefur í gegnum árin séð um mótahald og æfingabúðir.
Í Ými höfum við undanfarin ár einbeitt okkur að byggja upp starfsemi fyrir hóp siglara sem njóta þess að sigla án þess að einhver pressa eða kvaðir séu lagðar á keppnismennsku. Þetta kemur meðal annars til vegna þess að góðir kennslubátar eins og við erum með eru einfaldari og sterkbyggðari en keppnisbátar, sem eru oft léttari, vakrari og með stærri seglabúnað. Auk þess er raunin að keppendur eru oft að stilla bátana af til eigin nota og þá er ekki hentugt aðrir séu mikið að nota sömu tæki.
Það er hins vegar ekkert að því að læra að keppa í siglingum með því að nota kennslubáta - bátarnir eru allir eins, eini munurinn er hversu vel þú siglir.
Hér að neðan er hönnun að einföldu framhaldsnámskeiði þar sem hugmyndin er að finna einstaklinga með svipaða reynslu í siglingum og fá þá til þess að spreyta sig í keppnum. Þetta skjal inniheldur einfaldaðar keppnisreglur og keppnisfyrirmæli sem hægt er að nota til þess að prófa og læra á keppnir.