Félagar í Ými geta átt kost á því að komast í áhöfn á kjölbátin Sif eða í áhafnir á kjölbáta sem eru í samstarfi við Ými.
Fastar áhafnir sigla einu sinni í viku á ákveðnum dögum og greiða áhafnagjald fyrir sumarið. Mælst er til að áhafnir hafi farið á námskeiðið Hæfur háseti eða hafi aðra siglingareynslu.
Þegar farið er út á sjó þarf að minnsta kosti einn í áhöfninni að vera með skemmtibátaréttindi eða önnur skipstjórnarréttindi á seglbát. Í áhöfn eru 3-5 að meðtöldum skipstjóra.
Félagar í fastri áhöfn hafa frátekið pláss á ákveðnum dögum og á ákveðnum tímum. Skipstjóri sér um að koma tilkynningu um siglingar inn á Sportabler kerfið. Áhafnarmeðlimir geta tilkynnt mætingu í gegnum kerfið.
Undanfarin ár höfum við náð allt að 16 siglingadögum yfir sumarið (frá maí til október - við erum bjartsýnt fólk).
Félagar í lausri áhöfn hafa ekki frátekið pláss, en sjá allar skipulagðar siglingar á Sportabler kerfinu. Ef laus pláss eru á bátnum geta þessir meðliomir sent inn beiðni um að komast út, yfirleitt daginn sem er siglt. Skipstjóri sér síðan um að staðfesta þátttökuna.
Undanfarin ár hafa áhafnir verið:
Kvennaáhöfn - siglir á mánudögum milli 16 og 21
Keppnisáhöfn - siglir á þriðjudögum (í þriðjudags keppnum hjá Brokey) og í öllum mótum sem Siglingasamband Íslands (SÍL) stendur fyrir. Þessi áhöfn hefur báta félagsins einnig til afnota á laugardögum til þess að stunda æfingar
Miðvikudagsáhöfn - siglir á miðvikudögum milli 16 og 21
Fimmtudagsáhöfn - siglir á fimmtudögum milli 16 og 21
Ungmennaáhöfn - siglir á föstudögum milli 16 og 21
Skipulögð námskeið og keppnir á vegum SÍL hafa forgang á yfir áhafnir
Sif 9836 var smíðuð árið 1995 af Sigurbátum. Báturinn er af tegundinni Secret 26, sem hannaður var af David Thomas, sem var einn af þekktustu skipahönnuðum lítilla "club-racer" báta. Sif er einn af sex eins bátum sem smíðaðir voru hérlendis af frumkvæði Rúnars Steinsen, Páls Hreinssonar og Ólafs Bjarnasonar og má segja að tilkoma þessara báta hafi umbylt starfsemi siglingaklúbba hérlendis.
Sifin er 8 metrar af leng, með djúpristan og grannan kjöl, flatan botn og mikinn seglaflöt. Gott rými er á þilfari bátsins til athafna og því er þetta kjör bátur til kennslu og keppnis siglinga. Sifin hefur skapgerð unglings. Hún er létt og ljúf í meðferð og bregst hratt við þegar seglum er breytt. Hún er hins vegar ekkert að fyrirgefa mistök og getur verið ókynd ef rangt er farið að henni.