Fatnaður fyrir siglingar
Siglingar eru útivist sem fer fram í vindi og veðri.
Þetta þýðir að það getur verið kalt og blautt á námskeiðunum.
Til þess að njóta útivistarinnar er nauðsynlegt að hafa meðferðis:
Handklæði
Poka fyrir blaut föt
Föt til skiptanna (alklæðnaður + skór)
Lítinn nestisbita (eitthvað lítið sem kemur krafti aftur í skrokkinn)
Besti fatnaður fyrir sjósport eru föt sem þorna fljótt eða haldast hlý ef þau blotna, til dæmis:
Vindbuxur eða hlaupabuxur
Vindjakki eða gamli fótboltagallinn
Ullarföt! Þunnar ullarpeysur og undirföt
Gömlu strigaskórnir (þessir sem voru á leiðinni í ruslið)
Sundbuxur/bolir í staðin fyrir nærföt
Húfa og vetlingar eða hanskar (þessir hlutir vilja hins vegar týnast)
Í lengri siglingum (t.d. á kjölbátum) er sérstaklega mikilvægt að hugsa um vind og vatnsvörn, þar sem sjógangur og langvarandi vindkul getur dregið af mönnum. Lengri siglingar eru oft nokkrir klukkutímar á bát sem er ekki með vindskjól og vatn gengur upp á þilfarið ef það er alda.
Við mælum eindregið gegn því að vera í bómullarfötum t.d.
Gallabuxur og gallajakkar
Bómullar joggingbuxur
T-bolir og þunnar bómullarflíkur
Hettupeysur
Þessi fatnaður missir allt einangrunargildi þegar hann blotnar, missir lögun og heldur vatni í sér. Leðurfatnaður er líka óhentugur fyrir siglingar.
Það er er ekki nauðsynlegt að eiga siglingagalla (blautbúning, þurrbúning eða sjóstakk) fyrir námskeiðin. Blautbúningar breyta vissulega um hversu auðvelt það er að halda áfram að sigla ef maður lendir í sjónum, þar sem þessi fatnaður einangrandi þrátt fyrir að hann blotni. Þetta eru hins vegar dýr fatnaður og það getur verið erfitt fyrir börn að komast í hann (blautgallar eiga að vera þröngir og stroffur á þurrbúningum eiga að vera þéttar).
Sjóblaut föt þarf að þvo eða skola vel eftir notkun, annars myndast fúi eða mygla þar sem sjórinn er fullur af lífi. Salt og sandur veldur líka hröðu sliti í fötum.